fimmtudagur, desember 18, 2008

Íslenskt - já takk

Farewell Good Night's Sleep er titillinn á nýjustu hljómplötu Lovísu „Lay Low“ Sigrúnardóttur. Samkvæmt tölum Tónlista blaðsins í dag er platan 10. söluhæsta plata vikunnar en hún hefur verið á listanum nú í 2 mánuði. Einnig má nefna að jómfrúarsmáskífa plötunnar, By and By, er 6. mest leikna lagið á útvarpsstöðum landsins og er búið að vera á meðal efstu 30. í tæpa 3 mánuði! Allt er þetta gott og blessað, Lovísa á allt gott skilið og hin minni íslensku plötufyrirtæki mega svo sannarlega skilið móttökum af þessari breiddargráðu.

Mér brá þó heldur betur þegar ég rakst á plötuna í hljómplötubúð í Kringlunni nú í jólamánuðinum. Skífan var þar fagurlega stillt upp undir formerkjum þorsksins í miðri búð, sýnileg öllum stökum mengisins „Skífan, Kringlunni“. Á snyrtilega plastbúnu umslaginu lá álímdur miði sem á stóð „100% íslenskt“! 

Er það nú lygi! Ég held að engin plata hafi verið eins óíslensk í háa herrans tíð. Ekki einu sinni Hollywood plata Herberts Guðmundssonar var svo erlend! Í fyrsta lagi, það sem liggur efst á yfirborðinu, platan ber erlendan titil, Farewell Good Night‘s Sleep og listakonan sjálf sem í birtu skammdegisins ber fallegt al-íslenskt nafn (þrátt fyrir að hafa ekki einu sinni fæðst á Íslandi) felur sig undir erlendu hliðarsjálfi - Lay Low. Öll lög bera enskan titil – öll lög eru sungin á erlensku. Lögin eru meiri að segja ekki öll stíluð á hinn íslenska flytjanda (The Reason Why My Heart‘s in Misery er eftir herra „Lefty“ Frizzell! (Það er þó kannski ósanngjörn árás þar sem mörg af þekktari íslenkum slögurum eru í rótina eftir erlenda höfunda, þó svo textum sé oftast snarað yfir á okkar alhýra)). Platan er tekin upp í Lundúnum, sem var ekki að finna á landakorti Landmælinga Íslands af hinu freðna föðurlandinu, undir handleiðslu Liam Watson í Toe Rag hljóðverinu (á al-erlendan búnað ef farið er út í þá sálma). 

Það sem fer þó mest fyrir brjóstið á annars hjartsterkum einstaklingi er það að meiri hluti, ef ekki allir, tónlistarmannanna sem leggja hönd á plóg eru af erlendri kviku! Carwyn Ellis, Ed Turner, Rupert Brown, Matt Radford, Jason Wilson og BJ Cole. Þeir hafa það ekki einu sinni í sér að bera skandinavísk eftirnöfn eða alþjóðleg fornöfn (fyrir utan Jason kannski og einhverstaðar las ég nú að Matt væri orðið gjaldgengt millinafn...) sem bera má fram á íslenskunni! Hvernig er hægt að réttlæta límmiða sem á stendur „100% íslenskt“ þegar útgáfufyrirtækið sjálft getur ekki einu sinni borið íslenskt heiti! (Ég dreg það svo í efa að platan hafi verið pressuð og prentuð á Klakanum! )

Er ekki eithvað í lögum sem banna svona lygar!!??

Á móti kemur þó að platan er mjög fín og er kjörin í jólapakkana. Málið er einfalt. Engin plata er 100% íslensk, hvað þá 84% íslensk! Plata eins og Farewell Good Night‘s Sleep, sem er svo bersýnilega algjörlega óíslensk á ekki að bera svona fáránlega lygi á umslaginu, hún á ekki að þurfa þess. Platan er vel gerð í alla staði og það eina íslenska við skífuna, Lovísa sjálf, má vera hreikin, en Herra Kári „Cod Music“ taktu þennan límmiða af umslaginu. Þetta er til háborinnar skammar.

-albert (með alóíslensku sveitina Harmonia á fóninum. Takk Benni – algjört yndi!)

mánudagur, júlí 09, 2007

meira af nauðgunum

Ég sá þetta á rafmagnskassa niðrí bæ:

Nauðgarar athugið:
Þögn er sama og samþykki.
Kveðja, Héraðsdómur Reykjavíkur.

Mér þótti þetta hálf fyndið,
eða kannski ekki beinlínis fyndið.

þriðjudagur, maí 29, 2007

Guðlaugur Þór Þórðarsson


Afhverju má ég ekki nálgast RapeLay á Istorrent ef ég má nálgast Hitman eða Grand Theft Auto (eða hvað þetta heitir nú allt) í BT?

Hinsvegar mæli ég með að þið nálgist Future Days með Can ólöglega eða löglega. Ekkert ofbeldi þar á ferð, kannski að maður skynji smá ofbeldi í trommunum.

mánudagur, maí 28, 2007

Ég elska Ólöf Arnalds (ég kann ekki að fallbeygja nafnið hennar)

Ljós þitt og skuggar á víxl sem hafa sýnt sig, bæði með góðu og ýmsu birtust þannig, ég segi dáldið oft þú veist þú veist já þú skilur mig, ekkert er víst nema víst er að ég hef þig. Farðu nú að sofa. Tíminn hann líður og tíminn læknar sárin, grynnist í hylnum þótt ekki hverfi tárin, ég segi dáldið oft ég veit, ég veit, já, ég skil þig, kannski mun líða að því er líða árin, farðu nú að sofa ég veit þú sefur í nótt. Farvegurinn bíður ég bið þess eins að finna'ann, allt fær að rata réttan veg og góðan, ég man þegar söngstu leggstu nú á koddann, augu mín luktust og róna mína fann, farðu nú að sofa, Ég veit þú sefur í nýju húsi í nótt.


ást að eilífu!

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Ég dansa einn

Á þessu ári hef ég alltaf borðað einn á fimmtudagskvöldum í apríl. Það er gífurlega einmannalegt að búa til máltíð handa einum. Úr kjallaranum ómar einhver frönsk gella syngjandi lífshlaupssöngva Elliot Smiths. Að elda einn er jafnframt mjög erfitt, því það endar sjaldnast í heilum máltíðum. Mér hefur því aldrei tekist að elda ofan í mig einan. Hversu ömurlegt er það að mistakast að elda ofan í sjálfan sig? Oftast samtíningur hingað og þangað um eldhúsið. Engin næring og engin ástríða. Samþjöppuð kjúklinga Campbells og brauð. Vatn. Ekkert ósvipað og í tugthúsum. Að elda samþjöppuðu kjúklingasúpuna hans Campbells, náskyldan frænda listverka Warhols, er engin ástríða. Það er engin ástríða í að opna niðursuðurdósir. Það er enginn að fara að segja mér að þú getur sett hjartað þitt (andlega/ljóðrænt, ekki bókstaflega) í súpu gerða úr þurkuðu kjúklingasagi og 7 ára gömlum kjúklingastrimlaleifum. (Hvað þá grænar baunir? Ora? Ástríða í matargerð?) En fyrir vikið er niðursuðudósamatur minn uppáhalds matur. Hann bragaðst alltaf nákvæmlega eins og þú veist nákvæmlega við hverju er að búast. Það er ekki gaman að eyða hálfri tylft klukkustunda í einhverja matargerð sem þú veist aldrei hvort eftir eigi að bragðast vel eður illa. Ég hef lært það af Sigurgeir efnafræðikennaranum mínum, og lífspekúlant með meiru, að óvissa í mælingum skipti öllu. Því fleiri mælingar því meiri óvissa. Því meiri óvissa því ónákvæmari mælingar. Með þeirri reglu verður matur sem tekur lengri tíma að undirbúa og útbúa skili sér í verri niðurstöðu. Við matreiðslu á Campbells súpum er en mæling. Það er mæling vatns (eða blöndu af vatni og mjólk) sem fer fram í sömu dós og samþjappaða súpu þykknið kom í. Þýðir það ekki að mælingarnar eru ávalt nákvæmlega hinar sömu? Minni tími, minni óvissa, betri niðurstaða. Með þessu hef ég sannað það að allur örbylgjumatur og niðursuðudósamatur er betri en allar jólarjúpur, þakkagjarðarkalkúnar og páskahérar til samans, þar sem samanlögð óvissa í mælingum örbylgju- og niðursuðudósamatnum er ávalt minni en óvissa í mælingum hátíðarmatsins.


besta blogg there is?

P.S. Samþjöppuðu súpur Campbells eiga 110 ára afmæli í ár.

P.S.2 70 ár eru liðin frá því að Campbells kynntu fyrstu grænmetissúpurnar fyrir grænmetisætur.

P.S.3. Hálf öld er liðin frá því að Campbells súpur fengust utan Ameríku.

P.S.P. Þetta blogg er tileinkað börnunum sem hafa aldrei hlotnast sá heiður að smakka Campbells.


- Albert Finnbogason, forfallinn súpuáhugamaður.

sunnudagur, janúar 21, 2007

HM í Handbolta

Ég vildi að ég ætti kött. Þessi köttur er búinn að vera rosalega góður við mig í allt kvöld. Horfði með mér á heila bíómynd (Miranda, með gellunni sem lék stelpuna í the Adams Family þáttunum sem voru sýndir þegar ég var 10, Cristina Ricci eða eithvað. Innihélt þó einnig gaurinn sem lék Bernard Summer í 24 Hour Party People og engan annan en sjálfan Special Agent Dale Copper! Þó ekkert spes mynd, hálf tóm eithvað.) án þess að segja eitt aukatekið orð. Át ekkert af mönsinu mínu og hagaði sér bara yfirhöfuð mjög vel. Ég vildi að fólk gæti verið svona endrum og eins. Það eitt að sjá köttinn bara sitja og hlusta með mér á OK Computer gerir mitt svarta hjarta örlítið hlýrra. Ég er heldur ekki frá því að hún andi í takt við lagið sem er í gangi. Hversu næs væri það að eiga kött sem kærustu? Ég held að ég hafi lesið það einhverstaðar að í Japan hafi maður gifst kettinum sínum. Ætli ég fari ekki í þann pakka ef ég finn mér ekki konu fyrir 25 ára aldur (las líka að lífið endaði í 25 ára aldri).


Ég fór í Hljóðfærahúsið í morgun og keypti mér gítartösku. Frekar rad, tweed og læti. En mikið svakalega langaði mig til að lemja henni (gítartöskunni) í hausinn á afgreiðslu manninum. Aldrei nokkurntíman hef ég fundið eins sterkt fyrir dýrseðlinu í sjálfum mér. Þessi einstaklingur var ekki fær í að fara með grunnsetningar afgreiðslustarfa eins og "get ég aðstoðað?" án þess að ég fann fyrir löngun til að kyrkja hann með næstu gítarsnúru. Ég keypti samt gítartöskuna dýrum dómum. Afhverju er ekki samkeppni á hljóðfæramarkaði? Hljóðfærahúsið kemst upp með lélegustu þjónustu í heimi (fyrir utan Exton) bara því að þeir einoka 76% af allri veltu hljóðfærabúða á landinu. Fokking fífl.

En ég ætlaði ekki að hafa það lengra. Skil ekki afhverju dagskráin hjá Sjónvarpinu er ekki lengri á laugardagskvöldum.







(mynd eitt - King Randor, einn af góðu köllunum í Masters of the Universe)
(mynd twö - Amerískur Spretthlaupari, sama tegund og Roadrunner í Looney Toons teiknimyndunum)


- albert